Smáraskóli tók nýverið þátt í „Grunnskólakeppni Samróms“. Samrómur er hluti af stóru samstarfsverkefni íslenskra háskóla, stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, sem munu á næstu árum þróa hugbúnað sem skilur og talar íslensku. Í grunnskólakeppni Samróms söfnuðu nemendur upptökum af sér að lesa orð og setningar sem síðan nýtast til að kenna tölvum og tækjum að skilja íslensku.
Úrslit grunnskólakeppninnar voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í vikunni og það voru forseti Íslands og forsetafrú sem afhentu verðlaunin. Smáraskóli sigraði keppnina í sínum flokki og las einnig mest allra skóla – 133 þúsund setningar frá 626 þátttakendum! Smáraskóli fékk í verðlaun 3 stykki Sphero bolts vélmenni en vélmennin tengja saman leik og forritunarkennslu og eru hönnuð til að ýta undir forvitni, sköpun og nýjar uppgötvanir.
Á myndinni eru forsetahjónin á Bessastöðum ásamt fulltrúum Smáraskóla við verðlaunaafhendinguna, þeim Tómasi Inga, Snædísi Örnu og Sólveigu Láru. Auk nemendanna tók Telma Ýr umsjónarkennari í 5. bekk þátt í athöfninni fyrir hönd Smáraskóla en hún hafði frumkvæði að því að kveikja áhuga nemenda á verkefninu og hvetja bæði nemendur og starfsfólk til dáða.