Tilgangur röltsins

Tilgangurinn er að efla kynni foreldra og virkja þá til samstöðu um að virða reglur um útivist barna og unglinga og að koma í veg fyrir hópamyndun unglinga eftir að lögbundnum útivistartíma er lokið. Þetta er mikið forvarnarstarf, með því að vera á ferli á þeim svæðum þar sem börnin halda sig mest, sýnum við þeim að okkur er ekki sama. Nærvera foreldra er líklegri til að fæla frá landasala og aðra ólöglega starfsemi sem ætlað er að freista unglinganna. Hafið í huga að börnin okkar verða unglingar fyrr en okkur grunar.

Röltið er ekki njósnastarfsemi sett til höfuðs unglingunum. Enginn segir frá þó að einhverjir þekkist, en ef eitthvað er ekki í lagi þá hefur röltarahópurinn samband við lögreglu í gegnum 112 sem ákveður hvernig gripið er inn í atburðinn.
Röltið er alls ekki viðbót við starf lögreglu, heldur samstarf foreldra til að efla virðingu fyrir reglum samfélagsins.

Reynslan af þessu starfi hefur verið afbragðs góð, gott samstarf er við félagsmálayfirvöld, ÍTK og lögreglu.

Samstaða foreldra skiptir máli, sjáumst hress og kát á röltinu í vetur.