Lög foreldrafélags Smáraskóla

Lög Foreldrafélags Smáraskóla – Með áorðnum breytingum. Fyrst samþykkt á stofnfundi félagsins 18. október 1995. Síðast breytt 19. september 2019 á aðalfundi.

1.grein.
Félagið heitir Foreldrafélag Smáraskóla og er til heimilis í Kópavogi.

2. grein.
Félagar eru allir foreldrar og forráðamenn nemenda í Smáraskóla.

3. grein
Markmið.
Markmið félagsins eru:
·         Að efla samstarf foreldra, nemenda og starfsfólks skólans.
·         Að styðja heimili og skóla til að skapa nemendum góð uppeldis- og menntunarskilyrði.
·         Að vera samstarfsvettvangur foreldra.
·         Að koma sjónarmiðum foreldra á framfæri varðandi menntunar- og uppeldismál.
·         Að búa til skemmtilegt samfélag.

4. grein
Leiðir.
Til að ná markmiðum sínum hyggst félagið:
·         Skipuleggja og þróa leiðir til að efla samstarf heimila og skóla.
·         Koma á umræðu- og fræðslufundum um uppeldis- og skólamál.
·         Skipuleggja og halda utan um starf bekkjarfulltrúa.
·         Kjósa fulltrúa í skólaráð samkvæmt reglum félagsins.
·         Standa að fræðslu og upplýsingamiðlun til foreldra m.a. með því að halda úti heimasíðu þar sem birtar eru fundargerðir og annað er tengist starfsemi félagsins.
·         Stuðla að öflugu forvarnarstarfi í skólasamfélaginu.
·         Styðja eftir megni félags- og tómstundarstarf nemenda.
·         Taka þátt í samstarfi við önnur foreldrafélög og samtök foreldra. 

5.   grein
Bekkjarfulltrúar.
Bekkjarfulltrúar starfa á vegum foreldrafélagsins sem setur þeim starfsreglur.
Hver árgangur skal hafa hið minnsta 4 bekkjarfulltrúa sem starfa allan veturinn. Eru þeir ábyrgir fyrir einni bekkjarsamkomu fyrir áramót og annarri eftir áramót. Foreldrar velja sér bekkjarfulltrúa fyrir miðjan september.
Bekkjarfulltrúarnir hafa frumkvæði að því að kalla eftir bekkjarsamkomu en bera ekki einir ábyrgð á framkvæmd hennar.
Mikilvægt er að gott samstarf náist með umsjónarkennara og foreldrum um bekkjarstarfið.
Bekkjarfulltrúar bera einnig ábyrgð á að manna þær rölthelgar sem bekknum er úthlutað.

6.  grein
Fulltrúaráð.
Bekkjarfulltrúar ásamt fulltrúum foreldra í skólaráði og stjórn mynda fulltrúaráð foreldrafélagsins.  Fulltrúaráð fundar minnst einu sinni fyrir áramót og einu sinni eftir áramót til að samræma störf bekkjarfulltrúa og til að fá yfirsýn yfir foreldrastarfið í skólanum.  Fulltrúaráð getur skipað í ákveðnar nefndir til að sinna stærri verkefnum.  Æskilegt er að skólastjórnendur sitji fundi með fulltrúaráði. 

7. grein.
Stjórn.
Stjórn félagsins skal skipuð sjö félögum sem kosnir eru á aðalfundi.  Tveir þeirra eru einnig fulltrúar foreldra í skólaráði.
Kosið er samkvæmt eftirfarandi reglum:
a.    Formaður kosinn til eins árs í senn.
b.    Sex meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára þannig að árlega gangi þrír úr stjórninni á víxl.
c.    Stjórnin kýs fulltrúa í skólaráð til tveggja ára, þannig að árlega er kosið um einn á víxl.
d.    Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér varaformann, ritara, gjaldkera og röltfulltrúa. Aðrir eru meðstjórnendur.
e.    Formaður kallar saman stjórnarfundi og stjórnar þeim og varaformaður að honum forfölluðum.
f.     Ritari skal halda gerðarbók fyrir alla stjórnarfundi í félaginu og annast bréfaskriftir ásamt formanni.
g.    Gjaldkeri skal sjá um varðveislu fjármuna félagsins.

8. grein.
Aðalfundur félagsins skal haldinn í maí ár hvert. Skal hann boðaður með tölvupósti og á heimasíðu skólans með minnst viku fyrirvara. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað.  Í fundarboði skal kynna efni fundarins.
Verkefni aðalfundar eru:
a.    Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b.    Skýrsla stjórnar.
c.    Skýrslur nefnda.
d.    Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar.
e.    Lagabreytingar skv. 9. grein.
f.     Árgjald félagsins ákveðið.
g.    Kosning stjórnar skv. 7. grein.
h.      Kosning skoðunarmanns reikninga.
i.     Skýrsla skólaráðsfulltrúa.
j.    Önnur mál.

Fulltrúa skólans er heimil seta á stjórnarfundum Foreldrafélags Smáraskóla.

9. grein.
Lögum þessum má aðeins breyta með einföldum meirihluta á aðalfundi. Enda hafi undangengist skrifleg kynning á tillögum til lagabreytinga í upphafi fundar.

10. grein.
Lög þessi öðlast þegar gildi.