Heimalærdómur

Landssamtökin Heimili og skóli hafa gefið út ágætan bækling um „heimanám fyrir börn og foreldra“. Hér verða dregin fram nokkur atriði úr bæklingnum.

BARNIÐ ÞARF Á STUÐNINGI ÞÍNUM AÐ HALDA
Heimanám er einn þáttur í daglegu lífi skólabarna. Í tengslum við það gefst foreldrum gott tækifæri til að fylgjast með námi barnanna og veita þeim stuðning og hvatningu. Áhugi foreldra á skólagöngu barna skiptir sköpum fyrir velgengni þeirra í námi. Þú getur lagt þitt af mörkum til þess að barninu þínu gangi vel í skólanum, t.d. með því að aðstoða það við að skipuleggja heimanámið.

1. Friður og ró
Börn að 10-11 ára aldri vilja helst vera í nálægð við einhvern fullorðinn við námið. Ef barnið lærir við eldhúsborðið þá getur þú aðstoðað það meðan þú lagar matinn. Yngri systkini mega ekki trufla og útvarpið ætti að vera lágt stillt ef kveikt er á því. Það getur verið jákvætt að eldri systkini aðstoði þau yngri. Námið hefur forgang, allir vinir ættu að fara heim þegar tími er kominn til að læra.

2. Ekki of seint á kvöldin
Til að heimanámið skili árangri þarf að koma á góðri reglu í sambandi við það. Verkefni barnsins eru alveg jafn mikilvæg og viðfangsefni annarra fjölskyldumeðlima og eiga ekki að sitja á hakanum. Best er að taka frá fastan tíma til að sinna heimanámi og helst ætti að ljúka því fyrir kvöldmat. Þessu þarf að huga að frá upphafi skólagöngu og mikilvægt er að festa góðar venjur í sessi.

3. Æfingin skapar meistarann
Einn tilgangur með heimanámi er að endurtaka efni sem þegar hefur veirð farið í, þ.e. að þjálfa betur ákveðin atriði. Margföldunartaflan er sígilt viðfangsefni og hægt að æfa hana með barninu hvar sem er. Meðan barnið er að ná góðum tökum á lestri þarf að lesa upphátt og í hljóði á hverjum degi. Ef lestraráhugi er takmarkaður er ágæt tilbreyting að biðja barnið að lesa fyrirsagnir í dagblöðum, skrítlur, auglýsingar eða annað sem því finnst spennandi.

4. Einbeiting eykur árangur
Stuttar, reglubundnar lotur þar sem barnið einbeitir sér að ákveðnu efni (10 – 20 mínútur) gera heimanámið árangursríkt. Börn skortir stundum einbeitingu og þá getur verið gott að taka stutt hlé milli námsgreina. Fylgstu með hvernig barnið vinnur og hjálpaðu því að finna aðferð sem hentar. Ljóðalærdómur verður t.d. auðveldari ef barnið skilur notkun stuðla og höfuðstafa eða ef ljóðið er sungið.

5. Barnið þarf að skilja verkefnið
Allt námsefni krefst ákveðins grundvallarskilnings. Það sem foreldrum finnst liggja í augum uppi, getur verið barninu með öllu óskiljanlegt. Hlustaðu á barnið svo að þú getir betur aðstoðað það. Sýndu þolinmæði þegar þú útskýrir málin, taktu einföld dæmi úr hversdagslífinu og tengdu við eitthvað sem barnið þekkir á heimilinu.

6. Talaðu jákvætt um heimanámið
Ekki nöldra yfir heimanáminu þótt þér finnist það kannski hvimleitt. Jákvætt hugarfar auðveldar flest verkefni, það þekkjum við sjálf. Barnið þarf að skilja tilgang heimanáms og sjá það sem eðlilegan hluta af skólastarfinu. Ef barnið fær of mikil heimaverkefni að þínu mati skaltu ræða það við kennarana. Heimanám ætti einnig að ræða á foreldrafundum í bekknum.

7. Engan samanburð við systkini eða aðra
Þótt þú hafir verið fær í stafsetningu er ekki víst að barnið þitt upplifi sömu gleði yfir stafsetningaræfingum. Systkini hafa misjafna getu og hæfileika og eilífur samanburður er niðurdrepandi. Mikilvægt er að bera virðingu fyrir hverjum einstaklingi óháð getu. Gerður frekar samanburð á því hvað barnið getur í dag og hvað það gat fyrir einu eða tveimur árum. Jákvæð hvatning er mikilvæg en of mikil pressa á barnið getur skaðað.

8. Vertu í nánu sambandi við skólann
Börnunum líður vel ef þau vita af því að foreldrar og kennarar eiga góð og tíð samskipti. Verið óhrædd að hafa samband við skólann ef einhverjar spurningar vakna varðandi nám og kennslu.
Foreldrarnir vita best hvað er að gerast í lífi barnanna utan skólatíma. Ef eitthvað bjátar á heima, t.d. sorg eða veikindi, þarf kennarinn að fá að vita það til að geta stutt barnið betur í skólanum.