Vináttudagur 8. nóvember

Á morgun, fimmtudaginn 8. nóvember verður Vináttugangan í öllum hverfum Kópavogs. Í Smárahverfinu eru Smáraskóli, félagsmiðstöðin Þeba, leikskólinn Lækur og leikskólinn Arnarsmári í samstarfi.

Nemendur okkar í 9. og 10.bekk fara í leikskólana Arnarsmára og Læk og fylgja leikskólanemendum í skipulagða dagskrá í Fífunni. Að dagskrá lokinni fylgja unglingarnir leikskólabörnunum til baka í leikskólann.

Allir í Smáraskóla mæta í Fífuna, þar ætlum við að syngja og dansa saman, hlusta á umfjöllun um vináttuna og mynda risastórt hjarta með hópnum.

Tilgangurinn með göngunni og vináttustundinni er að minna á hversu vináttan er dýrmæt – að allir geti verið vinir og góðir við aðra. Sömuleiðis er samveran liður í því að styrkja tengslin milli nemenda, starfsmanna og skólastiganna tveggja. Í tengslum við daginn hafa verið unnin margvísleg verkefni um vináttuna og gildi góðra samskipta.

Posted in Fréttaflokkur.