Kópurinn, viðurkenningar menntaráðs Kópavogs fyrir framúrskarandi grunnskóla- og frístundastarf í Kópavogi, var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum miðvikudaginn 19. maí. Alls bárust 16 tilnefningar til menntaráðs og voru veittar sex viðurkenningar fyrir verkefni sem þóttu fela í sér umbætur eða leiða til framfara í skóla og frístundastarfi.
Það er mjög ánægjulegt að segja frá því að fjögur verkefni úr Smáraskóla fengu tilnefningu og var einu þeirra veitt viðurkenning – en það ber nafnið „Kartöfluverkefnið“. Ragna Óladóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd skólans, en hún kom kartöfluverkefninu af stað fyrir nokkrum árum og hefur unnið það áfram ár hvert ásamt samkennurum á yngsta stigi. Hin verkefnin sem tilnefnd voru frá Smáraskóla voru „teymiskennsla í 5. bekk“, „útikennsla í 2. bekk“ og „sameiginlegt skólaþing nemenda, foreldra og starfsmanna“. Við erum ákaflega stolt af þessum tilnefningum og viðurkenningunni sem eru okkur mikil hvatning til áframhaldandi faglegs starfs og framþróunar í kennsluháttum.
Kartöfluverkefnið: Smáraskóli hefur árlega pantað aðgang að kartöflugarði á Kópavogstúni sem er um 25 fermetrar. Að vori í 2. bekk fara nemendur með um fimm kíló af útsæði sem spírar í skólastofunni og er svo sett niður um mánaðarmótin maí/júní. Skólinn á áhöld, kartöflugaffla, áburð og fleira. Að hausti í 3. bekk, um miðjan september, fara nemendur í garðinn og taka upp. Oft hefur uppskeran verið í kringum tólf til fimmtán kíló og nemendur ýmist notað uppskeruna í skólanum eða fengið með sér heim. Í ferlinu öllu er unnið eitt stór þemaverkefni í hvorum árgangi, auk margvíslegra smærri verkefna tengdum kartöflum, til dæmis haldin vettvangsbók, verkefni tengd stærðfræði (vigtun, stærðarflokkun og svo framvegis), náttúrufræði, kartöflubingó, kartöfluuppskriftir í heimilisfræði og fleira. Verkefnið er fjölbreytt og skapandi og gengur þvert á margar námsgreinar.
Smáraskóli fékk Kópinn
Posted in Fréttaflokkur.