Í gær opnuðum við þemadaga sem eru síðustu skóladagarnir fyrir páskaleyfi. Að þessu sinni er þemað tileinkað vinnu með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og tengingu þeirra við verkefni okkar hér í Smáraskóla. Markmiðið er að nemendur þjálfist í gagnrýnni hugsun hvað varðar þau sjálf og umhverfi okkar og víkki sjóndeildarhring sinn. Það var okkur mikill heiður að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherera heimsótti okkur af þessu tilefni og ávarpaði nemendur og starfsfólk með hvatningarorðum varðandi þemaverkefnin. Katrín talaði um mikilvægi þess að við fullorðna fólkið skilum jörðinni af okkur í góðu ásigkomulagi til næstu kynslóðar og að við sýnum öll ábyrgð í neyslu okkar og endurvinnslu á plasti. Hún nefndi mikilvægi þess að öll börn í heiminum fengju að ganga í skóla.
Vinna nemenda næstu tvo dagana verður fjölbreytt og mun án efa opna augu okkar allra fyrir þeim mikilvægu málaflokkum sem Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna benda okkur á, m.a. loftslagsmál og mengun, vellíðan og heilbrigði og fátækt. Afrakstur þemavinnunnar verður að miklu leyti huglægur og tengdur upplifun og því ekki að öllu leyti sýnilegur á veggjum skólans. Nemendur fara í vettvangsferðir, taka viðtöl og búa til hlaðvarpsþætti, halda fata- og skósölu, styrkja góðgerðarmálefni, fá gesti og fyrirlesara sem meðal fjalla um geðheilbrigði og vellíðan og svo ætla nokkrir nemendur að prófa að synda í plastmenguðu vatni!
Heimsókn forsætisráðherra á þemadaga
Posted in Fréttaflokkur.