Vináttudagurinn í Smárahverfi var haldinn hátíðlegur í Fífunni í dag. Dagskráin hófst kl. 10 er nemendur í 9. og 10. bekk skólans gengu í hús með smáa vini sína úr leikskólunum Læk og Arnarsmára. Hver unglingur bar ábyrgð á tveimur leikskólabörnum, gengu með þeim hönd í hönd frá leikskólunum í Fífuna og svo aftur til baka. Stóðu unglingarnir okkar sig afar vel, voru ábyrgir og traustir vinir.
Á dagskránni voru vinasöngvar og dansar þar sem stórir og smáir dönsuðu og sungu saman. Myndaður var gríðarstór vinahringur og framkvæmd var bylgja sem endaði svo með hópknúsi. Að ógleymdri heimsókn Blæs sem heiðraði okkur með nærveru sinni og söng og dansaði með nemendum. Blær er verkefni sem Barnaheill á Íslandi hefur látið þýða og staðfæra. Verkefnið snýst um að efla vináttu, vinarþel og vinna gegn einelti. Efnið verður notaður í kennslu með nemendum í 1. – 3. bekk skólans en leikskólarnir í hverfinu hafa unnið með verkefnið í sínu starfi síðustu ár. Kristín Laufey aðstoðarleikskólastjóri á Læk ávarpaði mannfjöldann og afhenti okkur fyrsta Blæ bangsann. Og svo birtist Blær skyndilega í fullri stærð og vakti það mikla lukku á meðal allra viðstaddra. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og Anna Birna Snæbjörnsdóttir sviðstjóri Menntasviðs tóku virkan þátt í gleðinni í morgun og sýndu m.a. snilldar danstakta. Fleiri myndir frá deginum má finna á fésbókarsíðu skólans á slóðinni https://www.facebook.com/Smaraskoli/
Vináttudagurinn í Smáraskóla
Posted in Fréttaflokkur.