Í Aðalnámsskrá segir að lestur sé öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti sé forsenda þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Móðurmál okkar, íslensk tunga og menning tengja saman fortíð þjóðarinnar og nútíð.
Góð lestrarfærni og skilningur á því sem er lesið, er undirstaða náms og leggur Smáraskóli því ríka áherslu á lestrarkennslu. Færni í lestri og góður lesskilningur byggir á þjálfun og er sú þjálfun sameiginlegt verkefni skóla og heimilis. Árangur í lestri byggir á samþættingu margra þátta og þarf að vinna með orðaforða, málskilning og málvitund með mismunandi aðferðum frá upphafi grunnskólagöngu. Orðaforði, málþroski og reynsluheimur nemenda eru undirstöður lesskilnings.
Lestrarstefna Smáraskóla hefur verið í þróun og er unnin eftir þeim lestrarkennsluaðferðum, skimunum og prófum sem notast er við hér í skólanum. Einnig er unnið eftir þeim nýju viðmiðum í lestri sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Leitast var við að setja stefnuna upp á því formi að hún nýtist sem vinnuskjal sem hægt er að efla og þróa. Markmið voru sett fram hvað varðar hraðlestrarfærni nemenda og er þeirri færni fylgt eftir með reglulegri skimun, söfnun og úrvinnslu gagna.
Lestur er undirstaða alls bóknáms og gera þarf íslenskukennslunni „ástkæra, ylhýra málinu“ eins góð skil og kostur er.
Leiðarljós
Í skólanum er unnið með læsi í víðum skilningi og á fjölbreyttan hátt með merkingarbærum viðfangsefnum. Smáraskóli hefur að leiðarljósi að skapa góða lestrarmenningu í skólanum þar sem stuðlað er að áhuga og ánægju af lestri. Lestur er lykillinn að öllu námi og því þarf lestrarþjálfun að vera með fjölbreyttu sniði á öllum stigum skólans.
Hér eru nokkur atriði sem hafa ber í huga:
- Leita þarf leiða til þess að gera viðhorf nemenda og foreldra til lesturs jákvætt.
- Stuðningur við foreldra í lestrarnámi barna sinna.
- Huga skal að ólíkum og fjölbreyttum textagerðum og veita nemendum þjálfun í lestri þeirra í öllum námsgreinum.
- Finna þarf lestrarefni við hæfi hvers og eins og huga að fjölbreyttum og áhugaverðum viðfangsefnum í lestri.
- Skapa skal hvetjandi lestrarumhverfi; hafa áhugavekjandi bækur og annað lestrarefni ávallt sýnilegt sérstaklega í og í kringum setustofu nemenda.
- Finna þarf árangursríkar leiðir til að meta stöðu nemenda í hverjum árgangi með skimunum og lestrarprófum. Grípa inn í með snemmtækri íhlutun þegar ljóst er að um lestrarvanda eða hættu á vanda er að ræða.