Skólaheilsugæsla

Heilsuvernd skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Markmiðið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk heilsuverndar skólabarna vinnur í náinni samvinnu við foreldra, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þjónusta heilsuverndar skólabarna er skráð í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar.

Heilsuvernd skólabarna í Smáraskóla er á vegum Heilsugæslunnar Hvamms. Skólahjúkrunarfræðingur er Brynhildur Guðmundsdóttir og viðverutími eftirfarandi:

Mánudagur kl. 08:00 – 12:00

Þriðjudagur kl. 13:30 – 16:00

Miðvikudagur kl. 08:00 – 12:00

Fimmtudagur kl. 08:00 – 14:00

Föstudagur kl. 08:00 – 14:00

Netfang skólahjúkrunarfræðings er smaraskoli(hjá)heilsugaeslan.is og beinn sími: 441-4812

Reglubundnar skoðanir og bólusetningar

1.bekkur: Sjónpróf, hæðar -og þyngdarmæling ásamt fræðslu og viðtal um lífsstíl og líðan.

4.bekkur: Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling ásamt fræðslu og viðtal um lífsstíl og líðan.

7.bekkur: Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling ásamt fræðslu og viðtal um lífsstíl og líðan. Bólusetningar: Mislingar, hettusótt og rauðir hundar(ein sprauta) og HPV (Human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini og kynfæravörtum. HPV bólusetningin er gefin tvisvar með 6 mánaða millibili.

9.bekkur: Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling ásamt fræðslu og viðtal um lífsstíl og líðan. Bólusetning: Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta).

Áður en kemur að bólusetningu er sendur tölvupóstur til foreldra með upplýsingum um tímasetningu.

Heilbrigðisfræðsla

Skipulögð heilbrigðisfræðsla er veitt í öllum árgöngum og er áherslan á að hvetja til heilbrigðra lífshátta. Eftir fræðslu fá foreldrar upplýsingar í tölvupósti um fræðsluna. Þá gefst þeim kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig hægt er að nýta það í daglegu lífi.

Veikindi og slys

Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að fara á heilsugæsluna eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í þá á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af heilsuvernd skólabarna.

Langveik börn

Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingur viti af börnum sem eru með fötlun eða langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, s.s. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki, blæðingarsjúkdóma eða aðra alvarlega sjúkdóma. Hlutverk skólahjúkrunarfræðings er að skapa þessum börnum viðeigandi aðstæður og umönnun í skólanum í samvinnu við foreldra og starfsfólk skólans.

Lyfjagjafir

Þurfi börn að taka lyf á skólatíma er foreldrum bent á að kynna sér tilmæli Landlæknis um lyfjagjafir í skólum.

Höfuðlús

Höfuðlús birtist reglulega í skólum landsins og er mikilvægt að foreldrar kembi hár barna sinna reglulega yfir skólaárið. Rétt er að láta skólann vita ef lús finnst í hári barns og skólahjúkrunarfræðingur getur leiðbeint varðandi lúsasmit.